„Það er kannski helst þessi þrautsegja og dugnaður kvennanna sem kemur endalaust á óvart,“ segir Guðríður Sigurðardóttir þegar hún lýsir upplifun af starfi sínu sem formaður Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar. „Hvernig þær finna þennan extra kraft í aðstæðum sem eru oft mjög erfiðar, taka af skarið og ákveða að fara samt í nám. Mér finnst þetta bara stórkostlegt afrek.“
Menntunarsjóður hefur starfað í tæpan áratug og hefur frá stofnun vaxið mikið að umfangi. Í dag styrkir hann rúmlega 70 konur til náms. „Það vita sífellt fleiri af tilvist sjóðsins sem ef til vill skýrir hvers vegna umsóknir hafa aukist svo mikið. En okkur er að sjálfsögðu kappsmál að geta styrkt sem flestar þær konur sem leita til okkar og þurfa á þessum stuðningi að halda. Það er þess vegna sem við erum í stöðugri fjáröflun. Við viljum geta mætt þeirri þörf sem mætir okkur hverju sinni,“ bendir Guðríður á.
Fjáröflunin byggir að stórum hluta á árlegri sölu „mæðrablómsins“ sem undanfarin ár hefur verið í formi leyniskilaboðakertis, þar sem skilaboð frá velunnurum sjóðsins koma í ljós þegar kveikt er á því.
Starfið fyrir sjóðinn er fjölbreytilegt. Guðríður segir margt hafi komið sér ánægjulega á óvart, ekki síst „hvað allir hafa verið jákvæðir í garð sjóðsins og hvað margir hafa verið tilbúnir að leggja okkur lið.“ Það hafi verið sérstaklega gaman að kynnast þeim mikla fjölda fólks úr ólíkum áttum sem hafi verið fúst til að leggja hönd á plóginn. „Svo er líka auðvitað þessi sterka tilfinning, að maður sé að gera gagn. Þega konur sækja um styrk ár eftir ár og þegar maður sér að þær eru að ljúka námi og jafnvel fá vinnu við það sem þær lærðu, það er alveg rosalega gefandi.“
Guðríður bendir á að starfið fyrir sjóðinn eigi sér líka ýmsar óvæntar hliðar. „Ég hefði til dæmis aldrei haldið að mér þætti gaman að standa í Kringlunni og selja kerti. En það er eitt af því sem hefur komið skemmtilega á óvart. Mér finnst svo gaman að hitta og kynnast nýju fólki. Maður er heldur ekki bara að fá fólk til að styrkja gott málefni heldur líka að selja fallega vöru. Fólk kemur jafnvel sérstaka ferð til að kaupa kertin sem gjöf. Þetta er eitthvað sem fólk langar raunverulega að gefa og eiga“.
Skilaboðin sem leynast í hverju kerti eru valin af velunnurum sjóðsins. „Velunnararnir eru konur sem eru öflugar fyrirmyndir fyrir alla en geta líka hjálpað okkur við að vekja athygli á starfsemi sjóðsins. Þær Vígdís Finnbogadóttir og Eliza Reid hafa lagt okkur lið síðustu ár og svo höfum við fengið eina nýja konu til að vera með á hverju ári. Við munum að sjálfsögðu líka gera það í ár. Þetta er skemmtileg hefð og það skapast alltaf svolítil spenna í kringum að kynna nýjasta velunnarann og þau skilaboð sem hún velur.“