„Þetta er bakland sem ég veit að ég get leitað til,“ segir viðmælandi minn, einstæð móðir og nemandi við Háskóla
Íslands, en hún er ein af þeim konum sem Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar styrkti til náms. Sjóðurinn hefur
staðið þétt við bak hennar með árlegum námsstyrkjum. Hún er nú að ljúka námi og mun útskrifast í vor með BA
próf í íslensku. Hún stefnir síðan ótrauð áfram og hyggst hefja meistaranám í talmeinafræði við Háskólann í
haust, en það nám mun veita henni starfsréttindi sem talmeinafræðingur.
Viðmælandi minn gaf sér tíma til að líta upp úr bókunum í stutt spjall deginum fyrir fyrsta próf. „Sjóðurinn hefur
borgað skólagjöldin mín og svo fæ ég líka styrk fyrir námsgögnum á hverri önn.“ Þannig bendir hún á að
sjóðurinn hafi létt henni þann fjárhagslega þrýsting sem hún hefði annars búið við sem einstætt foreldri í námi.
Stuðningur Menntunarsjóðsins hefur „bætt lífskjörin og hefur til dæmis gert okkur kleift að eiga skemmtilegan tíma
saman á sumrin,“ segir hún. Hún bendir á mikilvægi þessa þáttar því staðreyndin sé að „skortur komi ekki síst
niður á barni.“
„Ég frétti af sjóðnum þegar ég fór með vinkonu minni í fataúthlutun til Mæðrastyrksnefndar. Þar hitti ég yndislega
konu sem sagði mér að ég gæti sótt um styrk til að halda náminu áfram.“ Á þessum tíma var hún á fyrsta ári í
íslensku í Háskóla Íslands, einstæð móðir og, eins og hún segir sjálf, „ég átti enn þá svo langt í land. Ég sá bara
fram á að safna skuldum.“
Þegar hún hugsar til þess hverju stuðningur sjóðsins hafi breytt í lífi sínu segir hún einna mikilvægast hvernig
„styrkurinn skilaði sér til stráksins míns.“ Hún bendir til dæmis á að borgað hafi verið fyrir sumarnámskeið fyrir
son hennar þannig að hann gat tekið þátt og hlakkað til skemmtilegra hluta á sumrin þótt hún væri einstæð í
námi.
Hún horfir björtum augum á framtíðina og hlakkar til að takast á við á meistaranám í talmeinafræði sem, eins og
hún bendir á, býður upp á mjög breiðan starfsvettvang. „Þetta er ótrúlega spennandi leið til að hjálpa fólki og það
er hægt að velja að vinna með ólíkum hópum.“ Það sem samt heilli hana einna mest við
framtíðarstarfsvettvanginn sé að vinna með og vera í kringum fólk, ekki síst börn.