„Ég hélt ekki að ég gæti sótt um þennan styrk. Ég var í miðju háskólanámi í sálfræði og ég hélt að þetta væri frekar fyrir konur sem væru að klára framhaldskóla eða jafnvel konur af erlendum uppruna til að taka íslensku til að komast inn á vinnumarkaðinn.“ Hún bendir á að það að sækja um styrk hjá Menntunarsjóði hafi verið örþrifaráð sem reyndist síðan sá stuðningur sem varð til þess að hún gat klárað námið.
Viðmælandi okkar var komin langt í sálfræðinámi við Háskólann í Reykjavík þegar hún veikist. Veikindin ullu því að hún þurfti að vera frá námi eina önn og byrja síðan rólega aftur með því að taka færri áfanga. Þetta gerði það að verkum að hún gat ekki lengur sótt um námslán sem var lykillinn að því að geta borgað skólagjöldin. „Það er gerð krafa um að þú ljúkir ákveðið mörgum áföngum önnina áður til að geta fengið áfram lán. Staðreyndin er bara að þetta er dýrt nám og erfitt að vera einstæð móðir og ætla sér að komast í gegnum háskólanám í HR.“ Að fá styrk frá Menntasjóði mæðrastyrksnefndar til að greiða hlut í skólagjöldunum og kostnað við bókakaup var það sem bjargaði málunum. „Þetta var stoðin sem ég þurfti til að geta haldið áfram og klárað þessa síðustu önn,“ segir viðmælandi sem útskrifaðist með BS próf í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2023.
Spurð að því hvernig það hafi komið til að hún sótti um styrkinn til Menntasjóðsins, segir hún frá því að þetta ár hafi hún tekið ákvörðun um að koma í jólaúthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd. Þar hafi hún farið að ræða um sínar aðstæður við starfsfólk sem vann við úthlutunina. „Það var þá sem ég var hvött af starfsfólkinu sem tók á móti mér til að sækja um námsstyrkinn. En, eins og ég segi, það kom mér á óvart að þetta væri styrkur sem veittur væri í háskólanám og að þetta væri eitthvað sem ég gæti sótt um í þessum aðstæðum sem ég var í.“ Hún bendir jafnframt á mikilvægi þess fyrir alla sem eru í svipuðum sporum að leita allra leiða sem eru í boði, að gefast ekki upp og reyna að forðast að upplifa skömm vegna þess að maður þurfi að leita eftir stuðningi.
Aðstæður viðmælenda okkar hafa verið krefjandi allt frá því hún hóf menntaskólagöngu. „Ég byrjaði í raun fyrir alvöru í menntaskóla þegar dóttir mín var í kringum eins árs og gerði þetta síðan bara hægt og rólega.“ Á þessum árum voru þær mæðgur ýmist á almennum leigumarkaði eða í húsnæði í gegnum Félagsmálastofnun. „Síðan, um leið og ég klára stúdentinn 2017, þá sæki ég um leiguíbúð í gegnum BN (Byggingarfélag námsmanna) og fer beint í nám í háskólanum.“ Hún bendir á að það að hún hafi getað verið í námi allan þennan tíma, fyrst í framhaldskóla og svo háskóla, hafi í raun haldið þeim mæðgum á floti, eins og hún kemst að orði. „Ég er búin að búa í íbúðinni hjá BN alveg síðan ég byrjaði í háskólanum en nú er komið að því að ég er að flytja.“
Það má með sanni segja að lífið hafi tekið miklum breytingum síðan. Í dag er hún komin í sambúð, nýtt barn hefur bæst í hópinn og fjölskyldan er búin að kaupa sér íbúð sem þau eru að flytja í. „Þvílík gjörbreyting þetta síðasta ár. Þess vegna langar mig líka svo að gefa til baka. Ég var að njóta aðstoðar og nú er komið að því að ég get stutt aðra.“